Neyðarpillan

Neyðarpillan

Ef grunur er um að getnaður hafi orðið, til dæmis ef smokkur rifnar, þá er hægt að taka neyðarpilluna. Hana á að taka sem fyrst eftir að kynlíf var stundað.

Hún virkar best innan sólarhrings en hægt er að taka hana allt að 72 klst eftir atvikið.

Neyðarpilluna má taka hvenær sem er á tíðahringnum.

Eftir notkun neyðarpillunnar hafa hormónagetnaðarvarnir (eins og pillan og hringurinn) ekki fulla verkun og því er mælt með því að nota staðbundna getnaðarvörn, eins og smokkinn, þar til eftir næstu tíðablæðingar. 

Neyðarpillan inniheldur sterkan hormónaskammt og verkun hennar er að koma í veg fyrir egglos og frjóvgun ef samfarir hafa átt sér stað dagana fyrir egglos, þegar frjóvgun er hvað líklegust. Ekki er ráðlagt að taka neyðarpilluna oftar en einu sinni í tíðahring þar sem tíðahringurinn getur truflast. 

Það er ekki óeðlilegt að töku neyðarpillunnar fylgi örlítil óþægindi, mögulega einhverjar blæðingar, þreyta, höfuðverkur og ógleði. Ef kastað er upp innan 3 klukkustunda frá töku pillunnar þá þarf að taka aðra þar sem hún hefur ekki náð að framkalla verkun. 

Neyðarpillan er ekki hættuleg en ekki er mælt með að nota hana reglulega þar sem hún er mun sterkari en venjulega "pillan". Ef þig vantar getnaðarvörn er mun betra að taka pilluna reglulega heldur en að nota neyðarpilluna aftur og aftur. 

Hvað kostar neyðarpillan og hvar er hægt að kaupa hana?

Neyðarpillan kostar á bilinu 2000-4000 kr og hægt er að kaupa hana í apóteki. Starfsmaður í apóteki er skyldugur til að selja neyðarpilluna bara til þess sem er að fara að taka hana. Það er svo að starfsmaðurinn geti komið til skila öllum nauðsynlegum upplýsingum um aukaverkanir og hvað skal gera ef þú kastar upp.