Typpið

Typpið

Typpið er ytra kynlíffæri hjá þeim sem fæðast með XY litninga. Það eru líka til innri kynlíffæri. 

Ytri kynfæri

  • Typpið
  • Pungurinn

Innri kynfæri

  • Eistun
  • Sáðrásin
  • Þvagrásin
  • Blöðruhálskirtill

Ytri kynfæri

Typpið - ytri kynfæri

Limurinn (e. penis/shaft)

Limurinn sjálfur er gerður úr svokölluðum risvef. Hann getur fyllst af blóði við örvun og þá verður standpína. Lengd typpa breytist eftir því hvort það er ris eða ekki. Lengdin getur verið allt frá 2cm upp í 20cm. Meðallengd typpa árið 2015 var mæld 9,16cm í slökun og 13,24cm í risi. 

Ysti endi limsins kallast kóngur (e. glans penis) og er næmasti hluti typpisins. Þar er þvagrásaropið þar sem þvagið kemur út. Hjá þeim sem hafa ekki farið í umskurð er húð sem hylur vanalega kónginn og kallast forhúðin. Hún dregst aftur á bak við holdris/standpínu. Við umskurð er forhúðin fjarlægð í hreinlætis eða trúarlegu skyni, þá vanalega snemma eftir fæðingu. Undir forhúðinni geta safnast óhreinindi (stundum kallað typpaostur) og því er mikilvægt að toga forhúðina aftur og þrífa vel þar undir - þó ekki með sápu því kóngurinn er með slímhúð sem getur þornað við sápunotkun. Volgt vatn dugir alveg. 

Sumir hafa forhúð sem er of þröng og hún nær þá ekki að dragast aftur yfir kónginn. Það getur gert samfarir og sérstaklega smokkanotkun óþægilega og hægt er að leita til læknis til að fá lausnir á þröngri forhúð. 

Pungurinn (e. scrotum)

Pungurinn er pokinn sem liggur undir limnum og geymir eistun. Hann er mjög næmur fyrir snertingu og eistun innan hans mjög viðkvæm fyrir hnjaski og sársauka. Pungurinn getur legið mislangt frá líkamanum eftir hitastigi, en hans hlutverk er að vernda sæðisfrumurnar og halda réttum hita á þeim. Þess vegna dregst pungurinn inn við mikinn kulda en getur hangið lengra frá líkamanum ef það er of heitt. 

Innri kynfæri

Typpið - innri kynfæri

Eistun (e. testicles)

Eistun eru geymd innan í pungnum. Flestir eru með tvö eistu sem sjá um að framleiða sæðisfrumur og hormón eins og testósterón. Eistun geta framleitt allt að 300 milljón sæðisfrumur á dag!

Langflest eistu eru misstór og liggja ekki alveg í sömu hæð. Þau eru mjög viðkvæm og því er mikil sársauki ef högg kemur á eistun. Mikil og stöðug eymsli í eistum geta verið merki um sjúkdóm og mikilvægt að láta lækni líta á þau. Fæstir sjúkdómar eru hættulegir og létt að lækna. 

Eistnakrabbamein er líka tiltölulega algengt á ungum aldri og mælt að þreifa eistun reglulega. Þá er annað eistað skoðað í einu og leitað eftir óeðlilegum eymslum eða litlum hnútum sem geta verið á stærð við hrísgrjón eða baun. Aftast á eistanu liggur eistnalyppan svokölluð - hún á að vera með óreglulegri áferð en eistað sjálft og er oft aumari en eistað. Það er eðlilegt. Regluleg skoðun gerir þér kleift að finna betur allar breytingar sem verða á eistanu.

Sáðrásin (e. vas deferens)

Sáðrásin byrjar í eistunum og ber sæðisfrumur þaðan til sáðblöðrunnar. Hún myndar um 70% af rúmmáli sæðisins og geymir það fram að sáðláti við fullnægingu. Það eru tvær sáðrásir - ein tengd hvoru eista.

Þvagrásin (e. ureter)

Þvagrásin fer bæði með þvag frá þvagblöðrunni og sæði frá sáðblöðrunni. Hún ber einnig forsæði (e. precum) sem myndast í klumbukirtlinum. Það eru engar sáðfrumur í forsæði en sáðfrumur geta hinsvegar lifað í nokkra daga í þvagrásinni. Forsæði getur þessvegna stundum dugað til þess að bera með sér sáðfrumur ef kynlíf er stundað án smokks - þá getur orðið getnaður þó að fullnæging verði ekki inni í leggöngunum (þ.e. pull-out aðferðin er notuð). 

Blöðruhálskirtill (e. prostate)

Blöðruhálskirtillinn sér m.a. um að mynda meiri vökva fyrir sæðið, sem gerir sáðfrumum auðveldara að synda í. Hann er mjög næmur fyrir snertingu og vegna staðsetningar hans má örva blöðruhálskirtilinn í gegnum endaþarm. Upp úr fertugsaldri stækkar kirtillinn og getur valdið erfiðleikum við að pissa. Hjá ungu fólki eru erfiðleikar við þvaglát vanalega ekki merki um þessa góðkynja stækkun á kirtlinum og þá er mikilvægt að fara í skoðun. 

Spurt og svarað um typpið

Af hverju er fjólublá lína undir typpinu mínu?

Það er mjög eðlilegt. Þetta er bláæð sem er til staðar í öllum typpum en getur verið sýnilegri hjá sumum útaf þykkt og lit húðar.

Forhúðin mín er allt of löng, hvað á ég að gera?

Ef forhúðin er það löng að hún hrjáir manni í daglegu lífi þá getur verið sniðugt að fara til læknis og stytta hana örlítið. Forhúðir eru mjög mislangar og ekkert óeðlilegt er við það.

Hvað er eðlilegt magn af sæði við fullnægingu?

Venjulega koma um 2-5ml af sáðvökva við sáðlát, sem er svona eins og ein teskeið. Sá vökvi inniheldur kringum 200-500 milljón sæðisfrumur.

Viltu vita meira?

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!