Allir fæðast með rass og þar af leiðandi endaþarm.
Rassinn
Efnisyfirlit
Endaþarmsopið (e. anus)
Endaþarmsopið er við botninn á endaþarminum. Þar eru tveir sterkir hringvöðvar - annar sem við stjórnum sjálf og gerir okkur kleift að halda í okkur hægðum. Það þarf mikil átök til að slíta þennan sterka hringvöðva og ansi sjaldgæft að það gerist við endaþarmsmök ef farið er rétt að. Líklegra er að rifur/sár komi í endaþarmsopið sjálft, sem gengur til baka en getur verið sýkingarhætta. Þrálát sár við endaþarmsop er eitthvað sem er gott að láta lækni kíkja á.
Endaþarmurinn (e. rectum)
Endaþarmurinn er síðasti hluti meltingarkerfisins og tekur við af ristlinum. Endaþarmurinn er mjög viðkvæmur og með mikið af háræðum sem geta rifnað og valdið smávægilegum blæðingum. Það getur gerst við hægðatregðu eða við endaþarmsmök. Þess vegna er mikilvægt að fara allaf varlega í innsetningu inn í endaþarminn.
Af því að endaþarmurinn er með háræðaríka slímhúð geta kynsjúkdómar líka smitast við endaþarmsmök. Þess vegna þarf alltaf að nota smokk ef bólfélaginn er óviss hvort hann sé með kynsjúkdóm eða ekki. Svo virkar smokkurinn líka til að halda frá bekteríum og mögulegum hægðum úr endaþarminum.
Endaþarmurinn bleytir sig ekki sjálfur og því er mikill núningur við húðina innan hans. Það er lykilatriði að nota sleipiefni við endaþarmsmök til að koma í veg fyrir sár og óþægindi.
Skemmtileg staðreynd um endaþarminn er að hann virkar eins og ryksuga - það er þrýstingsmunur innan í endaþarminum og ef litlir hlutir eru settir inn í endaþarm þá sogast þeir alla leið upp að byrjun ristilsins. Þá þarf læknisaðstoð til að ná hlutnum út. Þess vegna er ekki mælt með innsetningu hluta í endaþarm nema þeir séu sérstaklega hannaðir til þess. Svoleiðis hlutir hafa þykkan og góðan botn á sér sem koma í veg fyrir að hluturinn sogist langt inn í endaþarm.
Smá hægðir eru eðlilegur hluti af endaþarmsmökum - það að skola endaþarminn mikið er ekki sniðugt. Langbest er að nota nóg af sleipiefni og smokk þegar endaþarmsmök eru stunduð en þó er hægt að leyfa sér að skola endaþarminn fyrir kynlíf ef það er gert með löngu millibili og framkvæmt rétt.
- Notið bara volgt vatn! Kranavatn er möguleiki en saltlausn (saline) er best. Enginn annar vökvi þarf að fara í endaþarminn.
- Losið um innri hringvöðvann með léttri snertingu - ytri hringvöðvinn slakar eftir stjórnun.
- Setjið vatnið inn með sérstöku enema/douche - notið sleipiefni til að koma stútnum þægilega inn. Einn fótur upp á klósettsetu hjálpar til við innsetningu.
- Það þarf ekki mikið vatn! Sprautið þeim skammti sem kemst fyrir í sprautunni og látið það duga.
- Ef hægt er, haldið vökvanum inni í nokkrar sekúndur áður en honum er sleppt út aftur - helst í klósett eða sturtuna.
- Það getur tekið allt að klukkutíma fyrir allan vökvann að skila sér út - ekki vaða beint í kynlíf eftir skolun.
- Reynið að skola ekki oftar en einu sinni á dag, 2-3 daga vikunnar.
Spurt og svarað um rassinn
Eru endaþarmsmök slæm fyrir mig?
Endaþarmsmök hafa ekki slæm áhrif á mann og geta verið mjög góð ef maður stundar þau rétt. Mikilvægt er að undirbúa endaþarminn með t.d. Fingri og nota nóg af sleipiefni. Manneskjan þarf að vera slök og tilbúin því annars slakar vöðvinn ekki í endaþarminum og þá er erfitt að koma einhverju inn. Einnig er mikilvægt, ef maður ætlar að nota hlut/dót, að hluturinn sé með stoppara/kanti á endanum, því endaþarmurinn virkar eins og ryksuga. Það er líka sniðugt að nota smokk við endaþarmsmök uppá sýkingahættu.
Hvað er rimjob?
Það er þegar endaþarmurinn er sleiktur. Mikilvægt er að gæta hreinlætis það sem miklar bakteríur eru við endaþarmsopið. Það er t.d. hægt að klippa smokk og setja hann fyrir opið og sleikja þannig, eða kaupa töfrateppi.
Hvað ef ég sting honum óvart inn í rassinn?
Þá er sniðugt að skipta um smokk, því endaþarmurinn er með bakteríur sem ekki er æskilegt að fá annars staðar. Það getur verið erfitt að fara óvart í rassinn því hann er frekar þröngur við venjulegar aðstæður.