Leggöngin byrja við leggangaopið og enda við leghálsinn. Þau eru vanalega í kringum 6 cm á lengd. Við kynferðislega örvun getur legið lyft sér upp og lengt leggöngin og þau slaka líka á og víkka. Þess vegna geta t.d. typpi sem eru lengri en 6 cm komist inn í leggöngin.
Litlir kirtlar sitja sitt hvoru megin við enda legganganna (við opið) og seyta vökva sem bleytir leggöngin, eins og náttúrulegt sleipiefni. Innri veggir legganganna eru viðkvæmir og þess vegna geta myndast lítil sár við samfarir. Aðal ástæðan er sú að það er ekki nægileg bleyta við samfarir eða leggöngin eru ekki nógu slök. Það er ekki hættulegt að það blæði við samfarir en auðvelt að koma í veg fyrir það með notkun sleipiefnis eða lengri tíma í forspil og slökun áður en kynlíf hefst.
Leggöngin eru góð í að hreinsa sig sjálf og þess vegna myndast útferð. Það er sérstök bakteríuflóra sem verndar leggöngin. Ef þessi flóra raskast getur komið upp sveppasýking. Það getur gerst vegna sápu eða annara efna sem kemst inn í leggöngin, töku sýklalyfja, blæðinga, þröngra buxna og fleira. Sveppasýking getur líka smitast milli bólfélaga. Hægt er að taka lyf til að losna við sýkinguna og koma flórunni aftur í rétt far.
Þessi viðkvæma bakteríuflóra gerir það líka að verkum að ekki er sniðugt að fara með neitt beint úr endaþarmi inn í leggöng. Í samförum er mælt með að skipta um smokk ef farið er frá endaþarmi yfir í leggöng og við notkun kynlífstækja skal þrífa þau vel á milli.
Meyjarhaftið (e. hymen) er teygjanleg himna eða hringur sem liggur innan í leggöngunum. Hjá sumum þekur hún allt holið og "lokar" leggöngunum en oft er þetta bara þykkur hringur innan í leggöngunum. Þessi himna getur slitnað eða rofnað og gerir það hjá langflestum á lífsleiðinni. Hjá sumum rofnar hún við kynlíf en hjá öðrum við áreynslu eins og fimleika eða hjólreiðar. Það getur blætt örlítið þegar himnan rofnar í fyrsta skiptið.