Klám

Klám

Klám er myndefni, texti, eða annað sem gert er í þeim tilgangi að skapa kynferðislega örvun. Það sýnir hluti frá kynferðislegu sjónarhorni eða sýnir kynferðislegar athafnir.

Af hverju er klám til?

Ástæður fyrir því að fólk horfir á klám geta verið fjölbreyttar en þær helstu eru líklega til að reyna að fræðast og til að sækja kynferðislega örvun t.d. við sjálfsfróun.  Mikilvægt er að hafa í huga að klám gefur ekki raunsæja mynd af kynlífi og er þess vegna ekki góð kynlífsfræðsla. Klám getur vissulega hjálpað sumum að örvast kynferðislega og eru margir sem nýta sér það til þess en mikilvægt er þá að hafa í huga hvað maður sé að horfa á, þetta er leikið efni sem er sett upp í óraunverulegum aðstæðum.

Fólk finnur klám víða, í bókum, þáttum, myndum og á netinu. Hægt er að nálgast klám bæði frítt og einnig með því að greiða fyrir það á hinum ýmsu stöðum. 

Hver er munurinn á klámi og kynlífi?

Grundvallarmunur á klámi og kynlífi er að klám er leikið efni, það fer oftast fram í aðstæðum þar sem samskipti einstaklinga eru lítil sem engin því allir þáttakendur eru að fylgja einhverju handriti eða leikstjóra.

Raunverulegt kynlíf byggist á góðum samskiptum, trausti, jafnræði og samþykki. Einnig getur klám ýtt undir óraunhæfa pressu varðandi frammistöðu, hugsun og atburðarás.

Ef að maður sér eitthvað í klámi sem mann langar að prófa þarf maður að vera fullviss um að bólfélaginn sé samþykkur og tilbúinn til að prófa án þess að vera undir pressu. Samskipti og samþykki eru lykillinn að góðu og heilbrigðu kynlífi.

Í “mainstream” klámi sem er oft algengt á fríum streymisveitum á netinu getur klám oft á tíðum verið mjög gróft og einfaldlega verið ofbeldi, sérstaklega gagnvart konum. Til eru dæmi um að einstaklingar séu neyddir til að leika í klámi gegn vilja sínum á lágum launum og slæmri meðferð. Þess háttar klám er oftar að finna á þessum fríu síðum og því getur verið gott að hafa það sérstaklega í huga við slíkt áhorf.

Gott er að vita það líka að bíómyndir gefa nær aldrei raunsæja mynd af kynlífi. Hversu oft heldur þú að fólk stundi kynlíf í lyftu í alvörunni borið saman við hversu oft það gerist í bíómyndum? Hversu oft sýna bíómyndir fólk taka upp smokka og nota þá í kynlífi?

Öðruvísi klám

Svokallað mainstream klám innifelur oftast ciskynja konu og karl að sofa saman þar sem að konur eru oft undirgefnar og karlinn stjórnar öllu. Einnig er hægt að sækja í hinsegin klám þar sem einstaklingar af sama kyni sofa saman.

Hvernig klám þú horfir á þarf ekkert að segja til um þína kynhneigð. Gagnkynhneigðir einstaklingar geta alveg eins viljað horfa á hinsegin klám og samkynhneigðir jafnvel á gagnkynhneigt klám. Mörgum finnst jafnvel hinsegin klám innihalda minna ofbeldi og betri framkomu við konur og velja það þess vegna fram yfir "mainstream" klám. 

Svo er líka til nýtt fyrirbæri sem kallast "feminískt klám" þar sem lögð er áhersla á að sýna "eðlilegra" kynlíf en í mainstream klámi þ.e. einstaklingar nota samskipti, getnaðarvarnir og jafnræði ríkir á milli allra. 

Áhrif kláms

Það er persónubundið hvort einstaklingur horfir á klám. Stór hluti fólks horfir eða hefur einhverntíman horft á klám og samkvæmt rannsóknum eru almennt fleiri strákar en stelpur sem horfa á klám. 

Sama hvort þú horfir reglulega á klám eða bara stundum er gott að hafa eftirfarandi þætti í huga!

Áhrif kláms (klámvæðing) getur ýtt undir:

  • Áhyggjur varðandi útlit og sjálfsmynd t.d. líkamlegt útlit og útlit kynfæra.
    • Flestir leikarar í mainstream klámi eru valdir út frá útliti kynfæra og eru oft vel snyrt, með brjóstafyllingu eða nota töflur til að viðhalda stinningu á typpi
  • Áhyggjur varðandi frammistöðu í kynlífi.
    • Í klámi er hægt að ýta á pásu eða klippa út allt sem fer úrskeiðis. Í alvöru kynlífi getur allskonar komið upp á t.d. einhver prumpar eða fær fullnægingu fyrr en þeir vildu -- það er það sem gerir kynlíf svo spennandi! Þú veist aldrei hverju þú átt von á.​
  • Neikvæð áhrif á kynlíf með bólfélaga með því að yfirfæra hugmyndir úr klámi á eigið kynlíf án þess að gera sér grein fyrir því að virða mörk og samþykki.
  • Óheilbrigða klámnotkun.

En hvað telst vera óheilbrigð klámnotkun?​

  • Þegar einstaklingur er sífellt að horfa á klám sem hann sér eftir að horfa á.
  • Þegar fólk þarf stöðugt að sækjast í grófara og grófara klám (jafnvel sem það sér síðan eftir að horfa á) til að ná kynferðislegri örvun.
  • Þegar kynlíf við bólfélaga er farið að vera neikvætt því þú tekur hugmyndir úr klámi og yfirfærir þær á eigið kynlíf án þess að virða mörk og samþykki bólfélaga.
  • Þegar klámnotkun er farin að hafa neikvæð áhrif á daglegt líf t.d. skóla, vinnu, félagslíf o.fl.
  • Ef þú finnur fyrir einangrun vegna klámnotkunnar
  • Þegar maður er orðinn háður klámi til þess að finna fyrir kynferðislegri örvun

Sumar meðferðaraðferðir geta falið í sér:

  • Sálfræðimeðferð: Þetta getur hjálpað einstaklingi að skilja samband sitt við klám, greina ófundnar kynferðislegar þarfir og þróa aðferðir til að takast á við sálræna vanlíðan, hvort sem hún er uppsprottin vegna klámáhorfs eða undirliggjandi.
  • Tengslaráðgjöf: Sambandsráðgjöf getur hjálpað pari að tala um gildi sín, ákvarða hvort klám eigi stað í sambandi þeirra og rækta dýpra traust.
  • Lyf: Stundum notar maður klám til að takast á við annað ástand. Lyf geta hjálpað til við að meðhöndla undirliggjandi vandamál s.s. þunglyndi eða kvíða
  • Lífsstílsbreytingar: Sumir nota klám vegna leiðinda eða þreytu. Hollari lífsstíll getur falið í sér að eyða færri klukkustundum í tölvunni og eyða meiri tíma í hreyfingu, hitta vini o.s.frv. 

Ef þú upplifir að klám hafi slæm áhrif á þig eða samband þitt við aðra þá er gott að taka hlé eða hætta alveg að horfa á klám og þjálfa betur upp ímyndunaraflið.

Spurt og svarað um klám

Getur klám haft slæm áhrif á standpínu, minnka líkurnar á að maður fái standpínu?

Það er mjög persónubundið. Sumir örvast meira við klám en í raunverulegum aðstæðum, aðrir örvast ekkert við klám. Ef erfitt er að fá standpínu án þess að horfa á klám getur verið sniðugt að minnka klámáhorf í einhvern tíma og þjálfa sig upp í að örvast án kláms. 

Er í lagi að horfa á klám?

Það að horfa á klám gerir mann ekki að vondri manneskju. Þetta er mjög erfið og viðkvæm umræða fyrir marga en mikilvægast er alltaf að muna að klám er ekki kynfræðsla og sýnir stundum ofbeldi. Mikið af klámefni er ekki framleitt á mjög jákvæðan máta en það er ekki allt klám eins. 

Um leið og klámáhorf er farið að hafa neikvæð áhrif á þig (sjá umfjöllun hér fyrir ofan) þá má segja að það sé ekki í lagi að horfa lengur á klám. 

Gott er líka að muna að lögum samkvæmt er klám bannað fyrir alla undir 18 ára aldri. 

Hvar get ég fundið klám?

Klám finnst allstaðar á netinu. Góð þumalputta regla er að frítt klám er vanalega framleitt undir verri kringumstæðum heldur en efni sem er borgað fyrir. Verið alltaf meðvituð um hvað þið eruð að horfa á og hvaðan efnið kemur. Ef ykkur finnst eitthvað grunsamlegt við efnið sem þið eruð að horfa á þá er sú tilfinning líklega rétt og best að sleppa því að horfa á það.