Til eru margar tegundir af getnaðarvörnum. Getnaðarvarnir geta verið með eða án hormóna. Við val á getnaðarvörn er mikilvægt velta fyrir sér kostum og göllum hverrar tegundar. Svo er líka gott að hafa í huga að það sem hentar einum einstakling hentar ekki endilega öðrum.
Getnaðarvarnir
Efnisyfirlit
Smokkurinn
Smokkurinn er eina leiðin til að draga úr líkum á kynsjúkdómasmiti sé hann rétt notaður. Til að smokkurinn virki til að draga úr líkum á smiti er nauðsynlegt að nota hann frá byrjun þannig að slímhúðir þeirra sem mök eiga snertist ekki.
Smokkurinn fæst víða meðal annars í matvörubúðum, bensínstöðvum og lyfjaverslunum. Hann er til í ýmsum litum, gerðum og brögðum.
Alltaf á að nota smokkinn ef um er að ræða samfarir við einstakling sem viðkomandi þekkir lítið eða ekkert. Sem getnaðarvörn virkar hann þannig að hann kemur í veg fyrir að sæðið fari í leggöng við samfarir.
Ertu með Latex ofnæmi? Það er hægt að fá latex fría smokka!
Pillan
Pillan er til í tveimur gerðum.
- Önnur tegundin inniheldur 2 hormón, estrógen og gestagen. Til eru margar mismunandi samsetningar og sumir þurfa að prófa ólíkar pillur til að finna þá sem hentar
- Hin hefur bara eitt hormón, gestagen, og er kölluð minipillan
Öryggi
Pillan er mjög örugg getnaðarvörn þegar hún er tekin reglulega samkvæmt leiðbeiningum. Í tilraunum hafa samsettu pillurnar komið betur út en minipillan varðandi árangur gegn þungun en við notkun í daglegu lífi er enginn munur.
Áhætta
Áhætta af notkun pillunnar hefur verið skoðuð og eru til rannsóknir sem sýna mælanlega aukningu á sumu krabbameini en minnkun á öðru. Önnur alvarleg áhætta tengd samsettu pillunni er blóðtappi og er smá munur milli tegunda. Þeir sem reykja eða eru í yfirþyngd eru í aukinni áhættu að fá blóðtappa.
Hringurinn
Hormónahringurinn er grannur plasthringur sem er 5 cm í þvermál. Hann inniheldur hormónin estrógen og gestagen.
Við fyrstu notkun er hringnum komið fyrir í leggöngum eftir blæðingar og hann er hafður þar í 3 vikur. Þá er hann fjarlægður og nýr hringur settur upp eftir eina viku. Hver hringur endist í 3 vikur.
Plasthringurinn er frekar mjúkur og auðvelt að koma honum fyrir. Afar sjaldan þarf að taka hann út fyrir kynmök.
Helstu kostir hringsins
- Örugg getnaðarvörn (+99%)
- Ekki þarf að muna eftir honum daglega
- Blæðingastjórnun er góð og milliblæðingar sjaldgæfar
- Aukaverkanir litlar
- Mun minna hormónamagn en í pillunni
Vegna umhverfisáhrifa á ekki að henda notuðum hring í heimilissorp heldur fara með þá í apótek í förgun eins og öðrum lyfjum.
Sprautan
Sprautan er í formi stungulyfs og inniheldur hormónið gestagen. Hún er gefin í vöðva á 3 mánaða fresti (8-12 vikur). Hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni getur gefið sprautuna eða hægt er að nota hana heima ef fólk treystir sér til.
Aðalkostir sprautunnar
- Örugg getnaðarvörn (+99%)
- Ekki þarf að muna eftir getnaðarvörn daglega
- Henni fylgir oftast blæðingaleysi sem mörgum finnst ákjósanlegt. Blæðingaleysið hefur engar hættur í för með sér.
Ef hætt er á sprautunni þarf að reikna með að eftir síðustu gjöf endast áhrif í 3-6 mánuði.
Aukaverkanir
Mjög algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 sjúklingum):
- Þyngdaraukning, þyngdartap.
- Höfuðverkur.
- Taugaveiklun.
- Óþægindi í kvið, kviðverkir.
Algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 sjúklingum):
- Þunglyndi. Getur orðið alvarleg aukaverkun hjá sumum. Ræðið við lækninn.
- Minnkuð kynhvöt.
- Sundl/svimi.
- Æðahnútar.
- Ógleði, uppköst.
- Hármissir, óhrein húð/þrymlabólur (bólur), útbrot.
- Bakverkur.
- Spenna í brjóstum, aukin hvít útferð frá leggöngum, tíðaverkir.
- Þróttleysi og slappleiki.
- Þyngdaraukning, mæði, þroti í fótum og fótleggjum vegna vökvasöfnunar í líkamanum. Ræðið við lækninn.
Plásturinn
Hormónaplásturinn inniheldur hormónin estrógen og gestagen. Í plástrinum er forðalyf sem endist í 1 viku.
Við fyrstu notkun er plástrinum komið fyrir á handlegg, öxl eða öðrum góðum stað á líkamanum eftir blæðingar. Að viku liðinni er skipt um plástur. Svo er aftur skipt eftir viku (samtals 3 vikur með plástur) 4. vikan er án plásturs til að fá blæðingar. Hægt er að nota plástra allar vikur og stöðva blæðingar.
Helstu kostir plástursins
- Örugg getnaðarvörn
- Ekki þarf að muna eftir honum daglega
- Litlar aukaverkanir
Vegna umhverfisáhrifa á ekki að henda notuðum plástrum í heimilissorp heldur fara með þá í apótek í förgun eins og öðrum lyfjum.
Algengustu aukaverkanir
- Höfuðverkur
- Ógleði
- Eymsli í brjóstum
Aukaverkanir sem geta komið fram í byrjun meðferðar hverfa venjulega eftir fyrstu þrjá meðferðarhringina þ.m.t. blettablæðingar, viðkvæmni í brjóstum og ógleði.
Lykkjan
Lykkja er lítill T laga plasthlutur sem læknir eða ljósmóðir kemur fyrir inni í leginu. Mælt er með ómskoðun fyrir og eftir uppsetningu til að meta legið og staðsetningu lykkjunnar.
Læknir þarf að fjarlægja lykkjuna og má gera það hvenær sem er eftir uppsetningu.
Hormónalykkja
Á lykkjunni er lítið hormónahylki sem gefur frá sér örlítinn skammt af hormónum jafnt og þétt. Hormónalykkjan inniheldur hormónið gestagen.
Hérlendis eru mest notaðar þrjár gerðir hormónalykkja
- Mirena endist í 8 ár sem getnaðarvörn en 5 ár ef hún er notuð gegn miklum tíðablæðingum.
- Jaydess endist í 3 ár sem getnaðarvörn. Er aðeins minni lykkja en Mirena.
- Kyleena endist í 5 ár sem getnaðarvörn. Er jafnstór og Jaydess.
Helstu kostir hormónalykkju eru
- Örugg getnaðarvörn (+99%)
- Þarf ekki að muna eftir daglegri notkun
- Blæðingar minnka eða hverfa alveg sem mörgum konum finnst ákjósanlegt
- Aðeins staðbundin verkun
- Minna magn hormóna en í öðrum hormónagetnaðarvörnum
- Virkar strax eftir uppsetningu
- Áhrif lykkju og hormóna hindra þungun. Hormónalykkjan ver bæði fyrir þungun í legi og utan þess.
Helstu aukaverkanir hormónalykkjunnar eru
- Algengastar eru milliblæðingar í byrjun
- Þyngdaraukning
- Bólur á húð
- Blóðtappahætta er afar lítil
Koparlykkja
Koparlykkjan er úr plasti og örlitlum kopar sem er til þess að auka áhrifin. Lykkjan er mjög smár T laga hlutur sem læknir kemur fyrir inni í leginu. Þar hefur hún áhrif til að koma í veg fyrir þungun en hefur engin önnur áhrif á líkamann. Mælt er með ómskoðun fyrir og eftir uppsetningu til að meta legið og staðsetningu lykkjunnar. Lykkjuna má hafa þann tíma sem þarf á vörn að halda eða allt upp í 10 ár.
Helstu kostir koparlykkju
- Örugg getnaðarvörn (+99%)
- Lykkjan veitir vörn þar sem hún er þ.e. í leginu og er því ekki virk til að koma í veg fyrir þungun utan legs þ.e. utanlegsfóstur.
- Gleymist ekki
- Hefur ekki áhrif á hormónastarfssemi líkamans
Auknar blæðingar eru algengasta aukaverkunin því hentar koparlykkjan síst þeim sem hafa miklar blæðingar.
Stafurinn
Hormónastafur inniheldur hormónið gestagen og er lyfið í litlum plaststaf sem læknir kemur fyrir undir húðinni á upphandleggnum. Hægt er að finna stafinn undir húðinni en hann sést ekki.
Hver stafur endist í 3 ár en læknir getur fjarlægt hann hvenær sem er. Húðin er staðdeyfð bæði þegar stafnum er komið fyrir og hann fjarlægður.
Aðalkostir stafsins
- Örugg getnaðarvörn (+99%)
- Ekki þarf að muna eftir getnaðarvörn daglega
- Honum fylgir oftast blæðingaleysi sem mörgum finnst ákjósanlegt. Blæðingaleysið hefur engar hættur í för með sér.
Þegar stafurinn er fjarlægður fara áhrifin strax úr líkamanum.
Algengar aukaverkanir
- Þrymlabólur
- Höfuðverkur
- Þyngdaraukning
- Eymsli og verkir í brjóstum
- Óreglulegar blæðingar
- Sýking í leggöngum.