Getnaður

Getnaður

Til að getnaður eigi sér stað þarf sæðisfruma að komast í snertingu við eggfrumu og frjóvga hana. Það gerist (langoftast) við samfarir þar sem typpi fer inn í leggöng. Ólétta er skilgreind frá þeim tíma þegar frjóvgaða eggið sest í legslímuna - vanalega 2-3 vikum eftir að samfarir áttu sér stað. Þegar verið er að telja daga í óléttu er þó byrjað að telja frá þeim degi sem síðustu blæðingar byrjuðu.

Talað er um meðgöngur í vikum og dögum og er byrjað að frá fyrsta degi síðustu blæðinga - en sá dagur á þó sér stað fyrir getnaðinn sjálfan!

Til eru getnaðaraðferðir sem framkvæmdar eru af læknum en það er oftast nýtt af þeim sem eiga erfitt með hefðbundinn getnað eða eru ekki í sískynja og gagnkynhneigðu sambandi. 

Hvenær á getnaður sér stað?

Getnaður verður í kringum tíma egglos. Það þýðir að egg ferðast frá eggjastokkunum (eggið losnar) og út í eggjaleiðarana, og þar getur eggið hitt sæðisfrumu og frjóvgast.

Í kjölfarið á því að manneskja byrjar á blæðingum við kynþroska getur getnaður orðið, þar sem blæðingar eru fylgifiskur eggloss.

Ef tíðahringurinn er reglulegur eru allar líkur á að egglos eigi sér stað í hverjum mánuði. Í óreglulegum tíðahring getur egglos átt sér stað nánast hvenær sem er en langoftast er gengið út frá því að egglos sé sirka 14 dögum áður en blæðingar hefjast. ​

Vegna þess hve óreglulegur tíðahringurinn er hjá flestum, þá er frekar áhættusamt að stunda samfarir án getnaðarvarna þrátt fyrir að miðað sé við egglos. Til eru "öruggari" dagar, settir innan gæsalappa þar sem aldrei er hægt að ganga 100% út frá því að getnaður eigi sér ekki stað. Samfarir á blæðingum eða rétt eftir blæðingar geta valdið getnaði. 

Bæði geta sáðfrumur lifað í nokkra daga eftir samfarir og egg geta legið í eggjaleiðurum í nokkurn tíma. Því er mesta öryggið í að nota getnaðarvarnir nema stefnt sé á að eignast barn. 

Hvernig á getnaður sér stað?

Þetta byrjar eins og minnst var á með sæðisfrumu og eggfrumu. Sæðisfrumur eru myndaðar í eistunum og eggfrumur í eggjastokkum.

Við egglos kemur eitt þroskað egg frá eggjastokkunum og ferðast í átt að leginu um eggjaleiðarana. Þetta ferðalag tekur 12-24 klst. og á meðan er eggið að bíða eftir að hitta sæðisfrumu. Sæðisfruman getur nefnilega ferðast upp leggöngin og inn í legið og þaðan inn í eggjaleiðarana. 

Sæðisfruman lifir í allt að 6 daga á meðan það leitar að egginu en deyr svo ef það verður engin frjóvgun. Ef frjóvgun tekst fer frjóvgaða eggið (kallað fósturvísir) lengra niður eggjaleiðara og alla leið í legið. Þar festist fósturvísirinn í legslímuna og myndar hormón sem koma í veg fyrir blæðingu - því þá myndi fósturvísirinn losna. Þess vegna stöðva blæðingar á meðgöngu.

Fyrstu vikurnar

Fyrstu vikurnar

Hér má sjá fósturvísinn - klasi af frumum sem hefur fest sig við legslímuna. Á þessum tímapunkti geta óléttupróf greint óléttuna en vanalega eru seinkaðar blæðingar aðal einkennin á þessum tíma. 

Spurt og svarað um getnað

Hvernig veit ég ef ég er ólétt/ur?

Helstu einkenni þungunar eru þau að blæðingar stoppa, spenna og eymsli í brjóstum, þreyta og ógleði. Ef grunur vaknar um þungun er fyrsta skrefið að fá það staðfest. Ein leið til þess er að kanna það með þungunarprófi. Þau fást í apótekum og sumum matvöruverslunum.

Við þungun myndast hormón (human chorionic gonadotrophin, HCG) í líkamanum sem þungunarprófin finna í þvagi. Þungunarpróf er áreiðanlegt ef farið er nákvæmlega eftir leiðbeiningunum sem fylgja prófinu.

Flest þungunarpróf eru marktæk frá þeim degi sem tíðablæðingar áttu að hefjast, almennt er það um tveimur vikum eftir getnað/egglos. Ef þú veist ekki hvenær næstu blæðingar ættu að byrja er ráðlegt að gera þungunarpróf þremur vikum eftir óvarðar samfarir.  

Hvernig þungunarpróf virkar

Get ég orðið óléttur þó ég sé trans-maður að taka testósterón?

Það eru ekki margar heimildir um trans menn sem verða óléttir á meðan full meðferð með hormónum er í gangi. Hinsvegar geta trans menn sem stöðva meðferð og hafa ekki farið í aðgerð á kynfærum ennþá orðið óléttir þegar meðferð hefur verið stöðvuð nógu lengi.

Breytast líkurnar á barni ef stelpan er á túr?

Það er mjög ólíklegt að verða ólétt á túr, en fræðilega er mögulegt að egglos verði 2-3 dögum eftir túr og sæðið enn til staðar.

Viltu vita meira?

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!