Kynleiðrétting felur í sér langt og strangt ferli í heilbrigðiskerfinu undir eftirliti nefndar sem starfar á Landspítalanum.
Ferlið byrjar á því að viðkomandi leitar til nefndarinnar og byrjar formlegt ferli þar. Þá tekur við fyrsta skrefið sem er oftast að tilkynna vinum og vandamönnum um þá ákvörðun, velja sér nýtt nafn og byrja að lifa í samræmi við sína kynvitund. Mismunandi er eftir einstaklingum hversu langt er þangað til næsta skref er tekið, en að jafnaði mega einstaklingar byrja í hormónaferli ári eftir þetta svokallaða undirbúningsstig (e. real life test).
Hormónameðferðin er mjög inngripsmikil og hefur mikil áhrif á bæði líkama og sál. Líkamin breytist líkt og þegar að einstaklingar fara á kynþroska, nema bara með mikið meiri krafti yfir styttri tíma. Fyrir trans konur þá breytist fitumyndun (t.d. stærri mjaðmir og brjóst myndast), hárvöxtur minnkar, húðin breytist, o.s.frv. Fyrir trans karla breytist fitumyndun, hárvöxtur eykst (t.d. skeggvöxtur og líkamshár), röddin dýpkar o.s.frv. Oft upplifir fólk geðsveiflur og breytingu á matarlyst, en miklar hormónabreytingar hafa óneitanlega áhrif á margt annað en eingöngu líkama. Oftast jafnast svo hlutirnir út þegar einstaklingar eru búnir að vera á hormónum til lengri tíma. Helstu breytingar eiga sér stað frá þremur mánuðum upp í tvö ár.
Samkvæmt lögum sem kveða á um kynleiðréttingarferli og tímaramma þarf trans fólk að vera í formlegu ferli í a.m.k. 18 mánuði áður en viðkomandi getur sótt um að fá að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð. Einstaklingar mega undirgangast aðrar aðgerðir fyrir það, á borð við andlitsaðgerðir, brjóstaaðagerðir, brjóstnám, legnám eða aðrar aðgerðir sem að fólk kýs. Mismunandi er eftir einstaklingum hvaða aðgerðir einstaklingar kjósa að undirgangast.
Algengt er að trans karlar undirgangast brjóstnám þ.e. láti fjarlægja brjóstin. Hjá transkörlum eru tvær aðal leiðir í boði. Í gegnum hormónaferli stækkar snípurinn þeirra og verður að litlu typpi sem er svo dregið út og auk þess er búin til sekkur úr skapabörmum og settir sílikon púðar inn í til að búa til eistu. Í þessu tilfelli verður typpið undir „meðalstærð“ en einstaklingar hafa fulla tilfinningu. Einnig er hægt að taka húð af líkama og mynda getnaðarlim sem er svo græddur á viðkomandi. Einstaklingar munu samt sem áður í flestum tilfellum hafa litla sem enga tilfinningu vegna skorts á taugaendum og geta ekki náð reisn án aðstoðar pumpu.
Fyrir trans konur er kynleiðréttingaraðgerðin mun þróaðri og fullkomnari heldur en fyrir trans karla. Það má segja að það sé vegna þess að það sé auðveldara að búa til kynfæri þegar þú ert með „efnivið“ heldur en að þurfa að bæta einhverju við eins og í tilfelli trans karla. Hjá trans konum eru leggöng, snípur og skapabarmar búnir til og virka þeirra kynfæri líkt og sís kvenna.
Til að ítreka það þá fer ekki allt transfólk í gegnum aðgerðir enda eru það ekki kynfæri eða kyneinkenni sem að skapa manninn eða konuna heldur þeirra kynvitund.