Kynvitund

Kynvitund

Orðið 'kyn' er flóknara en það virðist við fyrstu sýn, þar sem það er oft notað til að lýsa mjög ólíkum hlutum. 

Líffræðilegt kyn - algengasta notkun á orðinu kyn. Farið er eftir líffræðilegum einkennum svosem kynfærum og hormónatjáningu. Kyni sem er úthlutað við fæðingu (stelpa/strákur) fer bara eftir líffræðilegu kyni barns. 

 Kynvitund - upplifun einstaklinga af eigin kyni þ.e. sem kona, karl, bæði eða eitthvað á milli/utan við skilgreindu kynin tvö. Þarf ekki að samsvara líffræðilegu kyni.

Kyntjáning - hvernig fólk kýs að tjá sig með klæðnaði, hárgreiðslu, hegðun osfrv. Þarf ekki að samsvara kynvitund né líffræðilegu kyni og þarf ekki að tengjast kynhneigð.

Líffræðilegt kyn

Líffræðilegu kyni er oftast flokkað í stelpur (kvenkyn) eða stráka (karlkyn) eftir kyneinkennum. Kyneinkenni vísa til litninga, kynkirtla og líffærafræðilegra sérkenna manneskju, til dæmis æxlunarfæra, uppbyggingar kynfæra, hormónastarfsemi, vöðvauppbyggingar, dreifingar hárs, brjóstavaxtar og/eða hæðar.

Kvenkyn er skilgreint eftir XX litningum, píku, leggöngum, legi og eggjastokkum.

Karlkyn er skilgreint eftir XY litningum, typpi, pung og eistum.

Utan þessarar tvíhyggju (e. binary genders) má þó finna m.a. Intersex fólk, sem fæðist hvorki með þessi "stöðluðu" líffræðileg einkenni stelpu né stráks.

Kynvitund

Kynvitund er aðeins flóknari en líffræðilegt kyn og er mun óskilgreindari - kynvitund er frekar lýst sem rófi (e. spectrum) eins og litir. Þá má ímynda sér að líffræðilegu kynin séu svartur og hvítur og allir litir á milli geta verið til!

Fólk þarf ekki að lenda á kven- eða karlkyns endanum, eða neinsstaðar þar á milli. Kynvitund getur verið hvernig sem er. Í The Gender Book er kyni lýst sem plánetu og bókin er góð lesning fyrir áhugasama.

Þegar líffræðilegt kyn passar við kynvitund er talað um að fólk sé sískynja (e. cisgender). Fólki líður vel í eigin líkama. Andstæðan við að vera sískynja er að vera trans.

Transgender

Transfólk (e. transgender) upplifir sig aftur á móti ekki vel í eigin líkama. Misræmi er milli líffræðilegs kyns og kynvitundar.

Þá er ekki einungis átt við fók sem vill breyta líffræðilega kyni sínu úr einu yfir í annað þ.e. gangast undir kynleiðréttingu.

Undir transgender regnhlífinni er hægt að finna

  • Transsexual
  • Klæðskiptinga (e. crossdresser)
  • Kynsegin eða kynlausa (e. genderqueer og non-binary)
  • Drag 

Transsexual einstaklingar eru kannski best þekktir, en það eru einstaklingar sem gangast undir kynleiðréttingu og fara þá oftast yfir í annað af tveimur skilgreindu líffræðilegu kynjunum (karl eða kona).

Þá er trans kona kvenmaður sem fæddist með typpi en trans karl karlmaður sem fæddist með píku, til að einfalda útskýringar. Stundum er talað um transkonur sem mtf (male-to-female) og transmenn sem ftm (female-to-male). 

Oftast falla transsexual einstaklingar inn í annaðhvort af skilgreindu kynjunum (þ.e. eru gender binary) en eins og með flest annað í kynvitund eru engar reglur.

Klæðskipti eða drag

Klæðskiptingar (e.crossdresser) á við um fólk sem að klæðir sig í föt „af öðru kyni“. Einstaklingar sem skilgreina sig á þann hátt undirgangast oftast ekki neinskonar kynleiðréttingu, en geta valið sér nýtt nafn eða jafnvel farið í einhverskonar aðgerðir kjósi þau það.

Oftast eru einstaklingarnir sátt með eigin líkama og kynfæri en kjósa að tjá sig á óhefðbundinn hátt, t.d. í gegnum fataval. Þetta spilar þá meira inn í kyntjáningu heldur en í raun kynvitund.

Dragi er oft ruglað saman við það að vera transsexual eða klæðskiptingur en þar er stór munur á. Þegar að einstaklingur klæðist dragi þá er oftast um einhverskonar persónugervingu að ræða þar sem að einstaklingur fer í búning og býr til mjög ýkta persónu. Drag er því oft notað sem listform eða jafnvel í pólítískum tilgangi.

Algengt er að talað sé um dragdrottningar sem karlmenn sem klæða sig sem konur og dragkóngar væru þá konur sem klæða sig sem karlar. Í raun getur samt hver sem er verið dragdrottning eða dragkóngur sama hver kynvitund þeirra er, enda snýst drag um mikið meira heldur en að vera karlmaður sem fer í kjól eða kona sem fer í jakkaföt. Skiptar skoðanir eru hvort að drag fellur undir „transgender“ en burtséð frá því er mikilvægt að gera greinarmun á því og öðrum hópum.

Kynleiðrétting

Kynleiðrétting felur í sér langt og strangt ferli í heilbrigðiskerfinu undir eftirliti nefndar sem starfar á Landspítalanum. 

Ferlið byrjar á því að viðkomandi leitar til nefndarinnar og byrjar formlegt ferli þar. Þá tekur við fyrsta skrefið sem er oftast að tilkynna vinum og vandamönnum um þá ákvörðun, velja sér nýtt nafn og byrja að lifa í samræmi við sína kynvitund. Mismunandi er eftir einstaklingum hversu langt er þangað til næsta skref er tekið, en að jafnaði mega einstaklingar byrja í hormónaferli ári eftir þetta svokallaða undirbúningsstig (e. real life test).

Hormónameðferðin er mjög inngripsmikil og hefur mikil áhrif á bæði líkama og sál. Líkamin breytist líkt og þegar að einstaklingar fara á kynþroska, nema bara með mikið meiri krafti yfir styttri tíma. Fyrir trans konur þá breytist fitumyndun (t.d. stærri mjaðmir og brjóst myndast), hárvöxtur minnkar, húðin breytist, o.s.frv. Fyrir trans karla breytist fitumyndun, hárvöxtur eykst (t.d. skeggvöxtur og líkamshár), röddin dýpkar o.s.frv. Oft upplifir fólk geðsveiflur og breytingu á matarlyst, en miklar hormónabreytingar hafa óneitanlega áhrif á margt annað en eingöngu líkama. Oftast jafnast svo hlutirnir út þegar einstaklingar eru búnir að vera á hormónum til lengri tíma. Helstu breytingar eiga sér stað frá þremur mánuðum upp í tvö ár.​

Samkvæmt lögum sem kveða á um kynleiðréttingarferli og tímaramma þarf trans fólk að vera í formlegu ferli í a.m.k. 18 mánuði áður en viðkomandi getur sótt um að fá að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð. Einstaklingar mega undirgangast aðrar aðgerðir fyrir það, á borð við andlitsaðgerðir, brjóstaaðagerðir, brjóstnám, legnám eða aðrar aðgerðir sem að fólk kýs. Mismunandi er eftir einstaklingum hvaða aðgerðir einstaklingar kjósa að undirgangast.

Algengt er að trans karlar undirgangast brjóstnám þ.e. láti fjarlægja brjóstin. Hjá transkörlum eru tvær aðal leiðir í boði. Í gegnum hormónaferli stækkar snípurinn þeirra og verður að litlu typpi sem er svo dregið út og auk þess er búin til sekkur úr skapabörmum og settir sílikon púðar inn í til að búa til eistu. Í þessu tilfelli verður typpið undir „meðalstærð“ en einstaklingar hafa fulla tilfinningu. Einnig er hægt að taka húð af líkama og mynda getnaðarlim sem er svo græddur á viðkomandi. Einstaklingar munu samt sem áður í flestum tilfellum hafa litla sem enga tilfinningu vegna skorts á taugaendum og geta ekki náð reisn án aðstoðar pumpu.

Fyrir trans konur er kynleiðréttingaraðgerðin mun þróaðri og fullkomnari heldur en fyrir trans karla. Það má segja að það sé vegna þess að það sé auðveldara að búa til kynfæri þegar þú ert með „efnivið“ heldur en að þurfa að bæta einhverju við eins og í tilfelli trans karla. Hjá trans konum eru leggöng, snípur og skapabarmar búnir til og virka þeirra kynfæri líkt og sís kvenna.

Til að ítreka það þá fer ekki allt transfólk í gegnum aðgerðir enda eru það ekki kynfæri eða kyneinkenni sem að skapa manninn eða konuna heldur þeirra kynvitund.

Spurt og svarað um kynvitund

Hvað er kynrænt sjálfræði?

Kynrænt sjálfræði eru lög sem samþykkt voru á Alþingi 18. júní 2019. Lögin fela í sér tvær meginbreytingar. Sú fyrri er hlutlaus kynskráning, þ.e. að hægt verður að skrá sig sem hvorki karl né konu – táknað með X á skilríkjum. Seinni meginbreytingin er að fólki verður frjálst að gera breytingar á kynskráningu sinni án þess að þurfa fyrst greiningu á svokölluðum „kynáttunarvanda“ af hendi heilbrigðiskerfisins með tilheyrandi biðtíma og óvissu. Börn undir 18 ára aldri geta jafnframt skráð sitt rétta kyn og nafn í Þjóðskrá með samþykki foreldra. Ef samþykki foreldra liggur ekki fyrir geta þau leitað til sérstakrar sérfræðinefndar.

Hvernig byrja ég trans ferlið?

Fyrir fólk yngra en 18 ára sem hefja vill trans ferli er haft samband við Barna-og Unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).

Fyrir fólk eldra en 18 ára er haft samband við trans teymi Landspítalans í gegnum transteymi@landspitali.is. Hægt er hafa samband við þjónustuver Landspítalans í síma 543-1000.

Það eru til allskonar stuðningshópar fyrir transfólk, bæði innan og utan Samtakanna. 

Viltu vita meira?

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!