Intersex

Intersex

Í einfaldri útskýringu er Intersex lýsing á líffræðilegu kyni einstaklinga sem falla utan staðlaðra kyneinkenna (sjá líffræðilegt kyn).

Þá eru það einstaklingar sem geta t.d.haft eggjastokka og typpi eða eistu og brjóst osfrv. Einnig getur verið mikið hormóna ójafnvægi þar sem kynlitningarnir (X og Y) eru ekki eins og hjá "hefðbundinni" konu (XX) eða karli (XY).

Intersex Ísland

Áætlað er að það sé jafn algengt að fæðast intersex og að fæðast með rautt hár!

Intersex er ekki það sama og tvíkynjungur (e. hermaphrodite) en það þýðir að vera með karl- og kvenkyns líffæri sem eru öll fullvirk. Við sem spendýr getum ekki virkað þannig.

Náttúrulegir intersex líkamar eru oftast heilbrigðir. Intersex einstaklingar geta oft þurft hormónagjöf, en sú þörf getur stafað af fyrri inngripum lækna

Læknainngrip

Læknainngrip miða alla jafna að því að láta intersex líkama aðlagast hugmyndum um karl- og kvenlíkama. 

Skurðaðgerðirnar leggja meiri áherslu á útlit en ekki næmni og kynheilbrigði. Börn geta ekki veitt upplýst samþykki um skurðaðgerðir. 

Mjög margir intersex einstaklingar líða fyrir þá líkamlegu og sálfræðilegu afleiðingar sem slíkar aðgerðir geta haft í för með sér ásamt því að finna fyrir skömm og afleiðingum leyndarinnar. 

Aðgerð á kynfærum geta haft áhrif á líf intersex einstaklinga ævilangt.

Hér má lesa meira um þessa baráttu

Spurt og svarað um intersex

Er Intersex ekki það sama og að vera trans?

Ólíkt trans og kynsegin fólki er intersex fólk ekki hluti af trans-regnhlífinni. Intersex vísar ekki til fjölbreytileika í kynvitund, því það að vera intersex snýst ekki um kynvitund eða kynleiðréttingu. Intersex er hugtak yfir meðfæddan breytileika á líffræðilegum kyneinkennum. Hægt er að vera intersex án þess að vita af því.

Sumir einstaklingar með intersex breytileika fá kynskráningu sinni breytt og að sumir þeirra skilgreina sig sem trans. Þetta er engu merkilegra en þegar intersex eða trans einstaklingar eru samkynhneigðir. 

Getur intersex fólk eignast börn?

Flestar gerðir af intersex valda ófrjósemi þar sem kynfærin hafa ekki fulla virkni, en þó ekki alltaf! Hægt er að vera með virkar sæðisfrumur og lim eða leg og eggjastokka sem framleiða egg. Sumt intersex fólk er líka ófrjótt vegna aðgerða sem gerðar voru við fæðingu eða mjög ungan aldur. Auk þess er ættleiðing alltaf möguleiki eða að taka börn í fóstur.

Eru intersex alltaf hinsegin í kynhneigð eða kynvitund?

Það fer eftir fólki hvernig þau skilgreina kynvitund sína (hvort þau komi fram "kvenlega", "karlmannlega" eða eitthvað þar á milli) og með hverjum eða hvort þau vilji vera í sambandi. Sumir intersex einstaklingar eru LGB+ en aðrir eru gagnkynhneigðir.

Intersex fólk heyrir undir hinsegin vegna intersex stöðu sinnar og deildrar reynslu af hómófóbíu, ekki vegna kynhneigðar eða kynvitundar.

Viltu vita meira?

Ef þér finnst þú ennþá ekki vita nóg eða þinni spurningu var ekki svarað, ekki hika við að hafa samband!